Hvað vill Ómar upp á dekk?

Eftir Snorra Sigurjónsson

Frá því Ómar Ragnarsson hinn ástsæli skemmtikraftur og sjónvarpsmaður „kom út úr skápnum” og ákvað að beina öllum sínum kröftum í þágu íslenskrar náttúru, svo ekki sé nú talað um að skipta sér af þjóðmálum almennt, höfum við orðið vitni að ótrúlegum viðbrögðum gegn þessari ákvörðun hans.

 

Hvað er þessi góði maður að skipta sér af pólitík?  Ómar sem hefur staðið sig svo vel og unnið ómetanlegt starf fyrir þjóðina sem frétta- og þáttagerðarmaður.  Hann sem hefur vakið athygli á svo mörgu sem oft vill gleymast og sýnt okkur myndir af einstæðri náttúru.  Af hverju gat hann bara ekki haldið þessu áfram án þess að „óhreinka” sig í pólitík spyr fólk.  Auðvitað svarar Ómar þessu best sjálfur og hann hefur gert það. Ég var með fordóma um Ómar, að vísu mjög jákvæða, ég sá hann ekki fyrir mér sem stjórnmálamann.

 

Nú hefur þjóðin orðið vitni að því að Ómar er miklu meira en óháður fréttamaður og skemmtikraftur.  Hann er ótrúlega næmur á allt sem skiptir okkur máli.   Sjálfur hef ég verið þess aðnjótandi að kynnst honum í starfi með Íslandshreyfingunni.  Ég er ósvikinn af þeim kynnum og sífellt kemur Ómar mér á óvart með yfirgripsmikilli þekkingu og mannkærleika.  Kynnin staðfesta svo ekki verður um villst að drifkraftur þessa manns og allt hans starf innan hreyfingarinnar er vel ígrundað og byggist á hugsjónum um nauðsyn þess að bjarga Íslandi frá eyðileggingu af mannavöldum og um betra mannlíf í öllum landshlutum. Ef fleiri stjórnmálamenn tileinkuðu sér viðhorf og vinnubrögð Ómars væri pólitíkin vitrænni og skemmtilegri en raun ber vitni.

Stóriðjudraugurinn

Það voru fleiri en Ómar sem gerðu sér grein fyrir því að umhverfismál á Íslandi eru í sjálfheldu, en til að fá þar einhverju breytt yrði að stofna stjórnmálaflokk með þau mál í fyrirrúmi.  Sá flokkur yrði að sækja fylgi sitt inn í raðir þeirra sem kenna sig við miðju og til hægri.  Þessi flokkur er Íslandshreyfingin - lifandi land.

 

Kannanir benda til þess að um 60% þjóðarinnar séu mótfallin mengandi stóriðju með tilheyrandi landspjöllum.  Þrátt fyrir vilja fólks nær þetta viðhorf þó ekki í gegn hjá starfandi stjórnmálaflokkum nema hjá Vinstri grænum. Sá flokkur virðist á húrrandi uppleið, en hugmyndafræði þeirra mun takmarka fylgi þeirra og þeir munu ekki geta kveðið stóriðjudrauginn niður einir á báti.

 

Eins og dæmin sanna er öðrum flokkum á þingi ekki treystandi í þessum málum. Fólk með ýmsar stjórnmálaskoðanir hefur lagt mikið á sig til að koma vitinu fyrir þingmenn og verið óþreytandi að benda á hversu arfavitlaus stóriðjustefnan er, hvort sem litið er til náttúruspjalla eða efnahags- og félagslegra þátta.

 

Að öðrum ólöstuðum kemst þó enginn með tærnar þar sem Ómar hefur hælana í þessari baráttu.  Enginn hefur lagt eins mikið undir og það hefur hann gert á eins óeigingjarnan hátt og hægt er að hugsa sér.   Það virðist hins vegar vera sama hversu góð rökin eru, áfram skal valtað yfir sérfræðiálit og heitar tilfinningar fólks.  Þannig vinnubrögðum verður að breyta á Alþingi og það skal vera hægt.

Ekki eins máls flokkur

Sem stjórnarmaður hjá Íslandshreyfingunni get ég fulllvissað kjósendur um að mikil vinna hefur verið lögð í að skapa raunhæfa stefnu þar sem sérstök áhersla er lögð á frelsi til athafna og að skapa umgjörð fyrir einstök byggðarlög til að þau geti eflst á eigin forsendum.  Við ætlum ekki að ákveða hvar hver skal búa og við hvað hver starfar, en frjór er frjáls maður og við viljum tryggja að fólk geti búið með reisn hvar sem er á landinu. Til þess þarf fólk að geta sótt nauðsynlega þjónustu á auðveldan hátt og þar dugar ekkert minna en stórártak í samgöngumálum. Fjarskiptamálum þarf einnig að koma í viðunandi horf.  Jöfnun búsetuskilyrða er hagur allra.

 

Þá viljum við losa um ýmsa fjötra t.d. opna glugga (gera litla rifu framhjá kvótakerfinu umdeilda) til þess að fólk geti róið til fiskjar án þessa greiða milljónir fyrir fiskveiðiheimildir.  Mörkin þar yrðu smábátar undir 6 tonnum með hámark 2 handfærarúllur.  Sumarveiði á slíkum bátum myndu gjörbreyta bæjarlífi víða um land.  Afli yrði langt innan vikmarka þess sem Hafró gefur sér þegar veiðheimildir kvótaskipa eru ákveðnar og ætti því ekki að hafa áhrif á þær heimildir.  Þá þyrfti einnig að losa um fjötra sem torvelda fólki aðkomu í hefðbundinn búskap.  Æska og elli verða ekki afgangsstærðir hjá okkur.  Við höfum ekki gleymt því hverjir komu þjóðinni yfir erfiðustu hjalla og við vitum hverra er framtíðin.

 

Ómar stendur ekki einn

Til forystu og á framboðslista hjá Íslandshreyfingunni hefur valist einstakur hópur hugsjónafólks sem stendur þétt saman.  Þessi hópur býr yfir víðtækri þekkingu og reynslu á ýmsum sviðum og hefur tekið ábyrga afstöðu í helstu málaflokkum sem skipta þjóðina máli.

 

Endilega, kíkið inn á heimasíðu okkar www.islandshreyfingin.is og kynnið ykkur stefnumál og glæsilega framboðslista.  Svo er bara að kjósa karlinn og hans ágæta fólk, hann á það skilið og það sem meira er um vert,  landið og þjóðin þurfa svo sannarlega á þessum kröftum að halda.

 

Snorri Sigurjónsson skipar 5. sæti á lista Íslandshreyfingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður


Hjörleifi svarað

Eftir Sigurð H. Sigurðsson

 

Í Fréttablaðinu í dag (í gær, innsk. ritstjóra), föstudaginn 13/4 birtist grein eftir hinn vígamóða Hjörleif Guttormsson þar sem hann fer þess á leit við Ómar Ragnarsson og Íslandshreyfinguna - lifandi land að þau hætti við margboðað framboð sitt til Alþingis. Hjörleifur er vel þekktur fyrir baráttu sína gegn álverum og virkjanaæðinu sem nú geisar sem aldrei fyrr og hefur vissulega verið drjúgur í þeirri baráttu. En grein hans er því miður ekki uppbyggilegt innlegg.

  

Íslandshreyfingin - lifandi land var stofnuð í þeim tilgangi að fjölga í græna liðinu. Henni er ætlað að vera málsvari þeirra sem láta sig umhverfismál miklu skipta en geta af ýmsum öðrum ástæðum ekki kosið Vinstri græna. Eitt helsta baráttumál hennar er að styðja við nýsköpun og frumlega atvinnustarfsemi aðra en þá sem skaðar land og þjóð. Hún leggur áherslu á sjálfbæra nýtingu auðlindanna og kýs gæði umfram magn og fjölbreytni umfram einsleitni. "Græn-vöxtur" er góðkynja hagvöxtur. Hún styður heils hugar við einkaframtakið og er á móti auknum skattaálögum. Hún vill sjá blómlega starfsemi í öllum byggðum.

  

Framtíðarlandið ætlaði sér svipaða leið, en í kosningu meðal félagsmanna varð niðurstaðan sú að ekki skyldi bjóða fram til Alþingis. Hjörleifur beitti sér þar mjög einarðlega gegn hugmyndinni og talaði oft og lengi á móti henni. Það má því vera ljóst að hann vill ekki undir neinum kringumstæðum sjá annað stjórnmálaafl sem leggur höfuðáherslu á umhverfismál. Heldur vill hann trúa því að allir svarnir umhverfissinnar muni styðja VG hvar svo sem önnur áherslumál þeirra liggja.

  

Gallinn við þetta útspil Hjörleifs er sá að hann er að spilla fyrir vinnu okkar við framboðið. Síðustu daga og vikur hefur verið unnið að því fullum fetum að koma saman trúverðugri stefnu og málefnaskrá. Það hafa verið haldir fundir víða um land með fulltrúum hins nýja framboðs. Síðast í gær var mjög spennandi fundur í Iðnó þar sem Arthur Bogason formaður Landssambands smábátaeigenda og Friðrik Arngrímsson framkvæmdastjóri LÍÚ töluðu fyrir sínum áherslumálum og svöruðu spurningum frá gestum í sal.

 

Mikill tími hefur farið í að finna frambærilegt fólk til að leiða alla framboðslistana. Þeirri vinnu er nú að mestu lokið og verða listarnir kynntir nú um helgina. Vonumst við til að það slái á allar úrtöluraddir í eitt skipti fyrir öll.

  

Að bjóða fram til Alþingis er lýðræðisleg leið til þess að hafa áhrif á mikilvæg mál og ná fram breytingum. Það er líka áhættusöm leið því að aldrei má ganga út frá því sem vísu að nýtt framboð komi fólki inn á þing. Aðrar leiðir eru vissulega fyrir hendi, t.d. að "styrkja" stjórnmálaflokka og fá þess í stað sporslur og fyrirgreiðslur líkt og tíðkast hér í ríkum mæli. Einnig er hægt að fara út í yfirtöku á eldri flokkum og breyta þeim í sérhagsmunasamtök án þess að sauðtryggir kjósendur hætti stuðningi sínum. Loks er hægt að beita þingmenn þrýstingi líkt og Framtíðarlandið gerði með auglýsingaherferð og undirskriftasöfnun sinni. Hjörleifi hugnast sú leið trúlega best en við sem stöndum að Íslandshreyfingunni - lifandi landi teljum að líklegast til árangurs sé að koma okkar fólki inn á þing. Annars værum við ekki að þessu.

  

Að ætla að gera Ómar og Íslandshreyfinguna ábyrga fyrir því ef ríkisstjórnin fær aukinn byr í seglin er afar ósanngjarnt og ætti Hjörleifur að hafa hugsað sig um tvisvar áður en hann ákvað að ráðast opinberlega gegn okkur. Hins vegar eru 4 vikur til kosninga og mjög margir kjósendur enn óákveðnir. Við munum kynna okkar málstað eins víða og unnt er og erum þakklát öllum þeim sem aðstoða okkur í því sambandi.

  

Af hverju biðlar Hjörleifur ekki frekar til þeirra umhverfissinna sem kosið hafa Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk og hvetur þá til að styðja Íslandshreyfinguna?

Sigurður H. Sigurðsson er félagi í Íslandshreyfingunni - lifandi landi


Hvað er Íslandshreyfingin - lifandi land?

Eftir Snorra Sigurjónsson

Lifandi land er tákn fyrir iðandi mannlíf í lifandi landi þar sem frelsi til athafna fær notið sín.  Í stefnu hreyfingarinnar er sérstök áhersla lögð á jöfnun búsetuskilyrða þar sem sjálfbær nýting lands og sjávar er höfð að leiðarljósi og eignaréttur virtur. Auðlindir geti þó enginn átt.  Þær eru ekki einu sinni þjóðareign, heldur sameiginleg verðmæti sem okkur hefur verið trúað fyrir á meðan við erum hér.  Þetta viðhorf er í góðu samræmi við hugtakið sjálfbæra þróun sem svo margir hafa tamið sér að nota en því miður aðeins í orði en ekki á borði.

Hvað er sjálfbær þróun?

Hugtakið sjálfbær þróun nær yfir það að fullnægja þörfum samtíðar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta sínum þörfum.Sjálfbær þróun byggist á þremur grundvallarþáttum.  Þeir eru náttúruvernd, efnahags- og félagsmál.  Þessa þrjá þætti þarf að styrkja án þess að einhver þeirra vaxi á kostnað hinna.  Ef hlutfallið raskast of mikið mun jafnvægi í þjóðarbúskapnum og í þjóðarsálinni fara úr skorðum.  Hugtakið sjálfbær þróun er viðurkennt, ekki nýtt af nálinni og ekki einu sinni íslenskt.    Hugmyndafræði gömlu flokkanna á Íslandi hefur margt að geyma sem gagnast framtíðarsýn um sjálfbæra þróun.  Íslandshreyfingin mun nýta það besta sem þar er að finna og tengja nýrri hugsun um velferð og frumkvæði fólks til góðra verka.  Hér skal þó undirrstrikað að náttúruvernd verður í fyrirrúmi hjá hinum nýja stjórnmálaflokki.  Sú sérstaka áhersla mun ekki skekkja myndina, heldur rétta hana af.  Gömlu áherslurnar hafa skekkt þá mynd sem flestir vilja sjá.

 

Byggðamál

Ekki hefur farið fram hjá neinum, þrátt fyrir bættan efnahag, að misrétti hefur aukist á Íslandi undanfarið og búseturöskun valdið skaða.  Þessi staða er engin tilviljun.  Umgjörðin er skökk.Við hjá Íslandshreyfingunni höfum síður en svo á móti því að einhverjir efnist, það ætti að koma öllum til góða ef rétt er á haldið.  Það má þó aldrei verða á kostnað náttúrunnar eða búsetuskilyrða.  Við viljum þó ekki ákveða hvar hver á að búa og við hvað hver starfar.  Við treystum fólki til að ákveða slíkt sjálft.Til að ná fram breyttu viðhorfi þarf að bæta ímynd landsbyggðarinnar, leggja áherslu á betri menntun í víðum skilningi, bæta samgöngur og jafna búsetuskilyrði.  Grundvallarskilyrði er að greiðar leiðir verði að byggðakjörnum þar sem nauðsynlega þjónustu er að fá.  Ný hugsun í anda lifandi lands mun breyta ímyndinni, en til þess þarf þjóðin að vinna saman.  Ísland allt er land tækifæranna. 

 

Alþing og lýðræði

Til þess að geta tekið afstöðu til mála þarf upplýsta umræðu í þjóðfélaginu áður en stórar ákvarðanir eru teknar, ekki innantóm slagorð og skítkast.  T.d. hafa íslensk stjórnvöld og alþingsmenn svikist undan í því að upplýsa um kosti og galla einstakra ákvarðana.  Flestir ráðamanna hafa ekki einu sinni fyrir því að skoða þau svæði sem ákveðið er að fórna á altari stóriðjunnar.  Að fara gegn grundvallarreglum lýðræðisins í slíkum málum er mjög alvarlegt og ætti ekki að líðast.Til að endurheimta virðingu Alþings þarf ýmsu að breyta, m.a. annars því að innan flokka geti talist eðlilegt í sumum málum að farið sé á svig við vilja meiri hluta þingflokks.  Að rekast illa í flokki, eða að vera trúr sannnfæringu sinni í einstökum málum er tvennt ólíkt.    Skoðanaskipti ættu aldrei vera þannig að alþingsmenn starfi eins og áhorfendur á fótboltavelli þar sem hver heldur með sínu liði á hverju sem gengur og engin virðing borin fyrir andstæðingunum.  Við hjá Íslandshreyfingunni - lifandi landi viljum ekki hafa Alþing Íslendinga þannig.

 

Vinstri, hægri snú…

Margir kjósendur treysta ekki sínum gamla flokki lengur af ýmsum ástæðum, m.a. í umhverfismálum.  Þarna er tómarúm og þar hefur Íslandshreyfingin ætlað sér stórt hlutverk.  Að bjóða fram til Alþings á öllu landinu er stór ákvörðun.  Sú ákvörðun er til komin af illri nauðsyn.  Hálendið og Ísland allt er í mikilli hættu.  Ánægjulegt er þó að þjóðin er að vakna til umhverfisvitundar og að slík sjónarmið hafa nú fengið rými í öllum flokkum, en það mun ekki duga.  Í Samfylkingunni, Frjálslynda- Framsóknar- og Sjálfstæðisflokknum er ennþá til staðar ótrúlegt fylgi við stóriðjuáform.  Höfum hugfast að “hófleg stóriðja” er ekki til.

 

Betri kostur

Ef þú ert einlægur náttúruverndarsinni en ekki mjög vinstri sinnaður þá er kominn nýr valkostur fyrir þig, valkostur um lifandi land.  Þótt flestir séu farnir að veifa grænum flöggum þá liggur fyrir að enn er veðjað á mengandi stóriðju í skjóli atvinnusköpunar.  Um leið og stóriðja býðst í einhverju byggðarlaginu munu hin fögru áform bresta.  Stóriðjublindan er ekki læknuð.Íslandshreyfingin - lifandi land er flokkur til framtíðar.  Umhverfishraðlestin er komin í gang.  Það er ekki of seint að stökkva upp í með Ómari og Margréti.  Setjum X við I og njótum ferðarinnar.

 

Snorri Sigurjónsson er félagi í Íslandshreyfingunni - lifandi landi


Framtak fólksins: Ákall

Ósk Vilhjálmsdóttir fjallar um atvinnumál, álver og byggðastefnu: "Íslensk hátæknifyrirtæki eru þegar byrjuð að flytja úr landi! Af hverju er heildardæmið aldrei rætt? Af hverju ráða stundarhagsmunir og heimtufrekir héraðspólitíkusar ferðinni á Íslandi?"

  

"ÞAÐ er ekki hægt að bjarga landsbyggðinni með því að byggja álver í hverju byggðarlagi. Það verður að byggja á fólkinu og framtaki þess," sagði Guðmundur Beck bóndi á Kollaleiru í fróðlegu innslagi í Kastljósi hinn 28. febrúar. Þar var fjallað um uppbyggingu álvers í Reyðarfirði og áhrif þess á samfélagið. Guðmundur hélt því fram að álversframkvæmdirnar hefðu lagt samfélagið sem var þarna fyrir í rúst. "Það fær enginn að fara lengur á sjóinn. Það er búið að loka bæði frystihúsinu og fiskimjölsverksmiðjunni," sagði hann og bætti svo við að þetta væri orðið eins-fyrirtækis-samfélag þar sem einn forstjóri ræður hvað lifir og hvað deyr. Þetta eru þung orð manns sem ann sínu byggðarlagi heitt og telur að búið sé að eyðileggja það.

 Orð Guðmundar um að byggðastefna verði að byggjast á framtaki fólksins hefur leitað á hug minn. Þetta fræga framtak sem er lofað og prísað á tyllidögum og stundum kallað einstaklingsframtak. Ég sé ekki betur en að íslenskir ráðamenn fyrirlíti framtak fólksins. Hin pólitíska atvinnustefna ríkisstjórnarinnar gengur út á gríðarleg inngrip stjórnvalda í atvinnulífið. Hún er í raun yfirlýsing um að framtakssemi einstaklinganna, hugvit, verkvit, þekking og reynsla hafi ekkert að segja. Hún felur líka í sér mikla vantrú á hreyfiafli hins frjálsa markaðar.Í grein sem Hörður Arnarsson, forstjóri hátæknifyrirtækisins Marels hf., skrifaði í Morgunblaðið nýverið bendir hann á að Landsvirkjun nýtur tekjuskattsfrelsis og ríkisábyrgða og Fjarðaál er ýmist undanskilið eða fær verulegan afslátt af gjöldum og sköttum. Íslensk hátækni- og þjónustufyrirtæki njóta ekki þessarar forgjafar. Samkeppnisaðstaðan er því afar ójöfn. Hörður segir að starfsmenn fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisiðnaði hafi fyrir vikið orðið fyrir mikilli kjaraskerðingu. Hluthafar hafi tapað fé og komið hafi til gjaldþrota fyrirtækja vegna langvarandi erfiðra rekstrarskilyrða. Í sama streng tekur Ágúst Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavarar. "Við Íslendingar," sagði hann í viðtali við Morgunblaðið í byrjun febrúar, "erum að eyða hundruðum milljarða í fjárfestingar sem er fyrirsjáanlegt að muni skila lítilli arðsemi". Það fer ekkert á milli mála að þeim Ágústi og Herði er mikið niðri fyrir. Þeir telja að upp sé runnin ögurstund í íslensku samfélagi. Ég sé ekki betur en að þeir séu algerlega sammála Guðmundi á Kollaleiru: Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar er að leggja framtak fólksins í rúst: Framtak sem kallast íslensk útflutningsfyrirtæki.Kannski er einhverjum huggun í því að ráðherrarnir Geir Haarde og Halldór Ásgrímsson hafa sagt opinberlega að við þurfum engar áhyggjur að hafa. Það geti ósköp vel farið saman að byggja upp stóriðju og reka á sama tíma öflug íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi, hátækni og ferðaþjónustu. Ágúst og Hörður telja það óhugsandi og segja að samkeppnisaðstaða útflutningsfyrirtækjanna gagnvart niðurgreiddri stóriðjunni sé vonlaus. Hverjum á maður nú að trúa? Ég get ekki að því gert að ég trúi frekar fólki sem hefur nýtt sér þekkingu sína, reynslu, hugmyndaflug og áræði til að byggja upp einhver öflugustu útflutningsfyrirtæki Íslandssögunnar, ég trúi þeim frekar en ráðherrum sem á unga aldri gengu beint inn sinn flokk og hafa aldrei tekið neina áhættu og aldrei komið nálægt atvinnurekstri eða yfirleitt látið sér detta nokkuð frumlegt í hug. Mér er raunar fyrirmunað að skilja að ráðherrarnir skuli komast upp með að láta varnaðarorð forsvarsmanna Marels og Bakkavarar sem vind um eyru þjóta. Það hafa jú margir fleiri varað við stórfelldri uppbyggingu álbræðslu á Íslandi. Hagfræðingarnir Sigurður Jóhannesson og Þorsteinn Sigurlaugsson hafa gert það margoft, við litlar vinsældir. Ragnar Árnason prófessor í hagfræði við HÍ sagði í Viðskiptablaðinu í haust að hagnaður þjóðarinnar af álbræðslunni væri lítill sem enginn. Af hverju kipptist enginn við? Ráðherrarnir hafa hingað til haft mikið álit á skýrslum og álitsgerðum Ragnars Árnasonar og hampað þeim opinberlega þegar mikið liggur við. Allt í einu hentar það ekki lengur. Samt komust hagfræðingar og fjármálasérfræðingar, sem skrifuðu skýrslu um álvæðinguna á Íslandi fyrir greiningardeild KB banka í haust, að svipaðri niðurstöðu og Ragnar. Heildararður þjóðarinnar af ábræðslunni er sáralítill miðað við aðrar útflutningsgreinar: Þjóðararðurinn af einu tonni af bræddu áli er 28 þúsund krónur (þá er ekki dreginn frá mikill umhverfiskostnaður), arðurinn af einum erlendum ferðamanni er að meðaltali 90 þúsund krónur og þjóðin fær í sinn hlut rúmlega 300 þúsund krónur af einu tonni af þorski; ellefu sinnum meira en fyrir eitt tonn af áli. Segja þessar tölur ekki eitthvað? Íslensk hátæknifyrirtæki eru þegar byrjuð að flytja úr landi! Af hverju er heildardæmið aldrei rætt? Af hverju ráða stundarhagsmunir og heimtufrekir héraðspólitíkusar ferðinni á Íslandi? Hvað eru íslenskir stjórnmálamenn að pæla? Hvað eru Íslendingar að pæla? Hvar er sjálfstæðisfólkið sem hefur alltaf gagnrýnt forræðishyggju og inngrip ríkisvaldsins í atvinnulífið? Hvar er samfylkingarfólkið sem veit ósköp vel að stóriðjustefnan er að drepa niður framtak fólksins? - Er ekki kominn tími til að þið látið flokkshagsmuni víkja fyrir þjóðarhagsmunum? Rísið upp úr lágkúrunni og látið í ykkur heyra! Höfundur er myndlistarmaður og leiðsögumaður.

 


Áhrif hnattrænnar hlýnunar á framtíð íslensks landbúnaðar

Eftir AgrDr Ingileif Steinunni Kristjánsdóttur 

             Um áratuga skeið hefur verið reynt að fella íslenskan landbúnað að hagræðingarstefnu þeirri, sem mjög hefur átt upp á pallborðið á Vesturlöndum síðustu ár. Hefur kerfi þetta ekki gefist betur en svo að til landauðnar horfir nú á stórum svæðum þar sem hann áður var blómlegur stundaður. Hefur þessi þróun ekki síst orðið vegna mikils reglugerðarfargans, sem ekki tekur alltaf mið af þeim möguleikum sem felast í íslenskum landbúnaði, og þeirrar staðreyndar að hnattræn lega þessa lands er sú, að það hangir neðan í heimskautsbaugnum lengst úti í hafi. Þetta leiðir til þess íslenskur landbúnaður getur aldrei framleitt afurðir á verksmiðjubúum, sem geta keppt við hámarksafrastursbú þeirra svæða heimsins, sem hvað best eru fallin til verksmiðjubúrekstrar. Eini búreksturinn sem hérlendis ætti að falla undir stóiðjuhatt, væri raforkusamningar á stóriðjuverði við samtök íslenskra garðyrkjubænda ásamt leyfi til þeirra, að fullvinna framleiðslu sína á heimavelli. Íslenskir gróðurhúsabændur nota nær eingöngu lífrænar varnir og notkun eiturefna heyrir þar til algerra undantekninga. En vegna síaukinna krafna um hagræðingu rækta þeir nú orðið nær undantekningarlaust í vatni, þ.e. svokölluð droparækt í vikri. Við vatnsræktun á tómötum er blandað 16 frumefnum út í vatnið sem plantan vex í, og þessi 16 frumefni eru síðan einu frumefnin sem finnast í plöntusafanum sé hann efnagreindur. Ef sama planta er ræktuð í mold og safinn úr henni efnagreindur finnast í safanum allt að 52 frumefni. Það segir sig sjálft að þeir tómatar sem koma á vatnsræktaða plöntu og plöntu sem hefur vaxið í mold eru ekki eins að gæðum. Garðyrkja sem fær rafmagn á stóriðjuverði og tekur tillit til áðurnefndra þátta er komin með skilyrði til framleiðslu á sannkallaðri gæðavöru.

 Enn eigum við ótrúlega möguleika á sviði landbúnaðar þar sem við gætum verið með hágæða framleiðslu á heimsvísu, á vistvænan hátt og í sátt við náttúruna.Þetta felst ekki hvað síst þeim möguleikum sem hnattræn hlýnum, miklir ónotaðir ræktunarmöguleikar bújarða og sérstaða íslensku mjólkurinnar valda.

Hnattræn hlýnun ásamt nýjum íslenskum byggtegundum sem fram hafa komið, gera að verkum að nú er hægt að rækta bygg í öllum landshlutum. Alþekkt er að mun fleiri fóðureiningar fást af hverjum hektara lands þar sem bygg er ræktað, en af túni. Gefur þetta því möguleika á að nýta íslensku kýrnar á allt annan hátt en áður. Nú er kúabúskapur án innflutts erfðabreytts maís allt í einu framkvæmanlegur. Aukin byggræktun gerir það að verkum að hægt er að hafa sama fjölda kúa á mun minna landsvæði en áður, ef nær eingöngu á að nota íslenskt fóður. Þetta, ásamt því að mjólk okkar kúakyns hefur þá sérstöðu að í henni er sérstakt prótein beta casein A2 sem virðist hindra nýgengi insúlínháðrar sýkursýki, en mjög lítið af A1 og B afbrigðum þessa próteins, sem flýta þróun sykursýki hjá tilraunadýrum. Í mjólk frá Skandinavíu sem rannsökuð hefur verið var mjög lítið af verndandi próteininu en aftur á móti mikið af þeim sem flýta þróun sykursýki. Þó hefur hlutfallið í íslensku mjólkinni dalað nokkuð síðan innfluttur maís tók að öllu að koma í stað grasköggla.

 

Með því að ala kýrnar á byggi, tapast ekki sá grófleiki úr fæðunni sem virðist okkar kúakyni svo nauðsynlegur til heilbrigðis. Þótt auðvitað verði framleiðslan á hverja kú okkru minni, en ef alið er á maís.

 

Þessi mjólk íslenska kúakynsins er afar dýrmætt hráefni til hágæða úrvinnslu á heilsumjólk, sem vinna mætti úr t.d. þurrmjólkurduft til útflutnings til þess að nota í hágæða barnamat ef rétt er að málum staðið. Þá er það ekki spurning að ostar úr okkar vistvænu mjólk hefðu ekki síðri slagkraft inn á heimsmarkaðinn en svissneskir ostar. Sérstaklega ef  sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum í landbúnaði væri gert léttara fyrir. Óframleiðslutendgir styrkir til kúabænda, sem á núverandi fjárlögum nema 20 milljónum króna gætu hér aukist á kostnað beinna framleiðslustyrkja til verksmiðjubúa í mjólkurframleiðslu, sem á núgildandi fjárlögum nema 4 milljörðum og 91 milljón króna.   

  

Til þess að framtíð íslensks landbúnaðar megi blómstra þarf  að gera allri nýsköpun og sprotafyrirtækjum léttara fyrir, ekki bara að því er viðkemur mjólkinni heldur líka viðvíkjandi kjötframleiðslu- og fullvinnslu allri, ásamt og allri annarri framleiðslu. Hér er til dæmis engin kúariða, þannig að hreint nautakjöt gæti líka orðið söluvara. Mjög nauðsynlegt er í þessu tilliti að unnt verði að stofna litlar til meðalstórar framleiðslueiningar, í stíl við Stóruvallabúið, til þess að fullvinna vörur úr hráefninu. Þetta gerir það að verkum, að rekjanleiki vörunnar verður svo miklu auðveldari og óhagganlegri. Hér væri um að ræða hágæða framleiðslu á heimsvísu, sem unnt væri að selja út um allan heim, sem verðmæta hágæðavöru.

 

Til eru jurtir sem vaxa mun betur á Íslandi en í öðrum löndum. Þessar jurtir þurfa svalt úthafsloftslag til að ná fullum krafti. Vegna hnattrænnar hlýnunar verður sífellt erfiðara að rækta þessar jurtir t.d. á meginlandi Evrópu. Hér er um að ræða jurtir eins og taraxacum fífil sem mikið er notaður sem salat við Miðjarðarhafið og er í raun túfífillinn okkar íslenski. Önnur jurt er ætihvönnin sem hefur kjörskilyrði hér á landi ásamt myntum og blóðbergi. Fer vel að nota ætihvönn í sáðskiptaræktun á móti byggi. Hér er enn möguleiki fyrir spotafyrirtæki og nýsköpun að koma inn af mun meiri krafti en nú er, sé reglugerðaumhverfið gert einfaldara og meira hvetjandi fyrir atvinnustarfsemi af þessum toga.

 

Á þann hátt sem nú hefur verið fjallað um væri sess íslensks landbúnaðar mjög sterkur og við þyrftum litlu að kvíða þótt WTO samningarnir eða annað þess háttar sem fylgir hnattvæðingunni tækju burt verndartolla.

  

Það sem við hefðum fram að bjóða er þá  einstök verðmæt hágæðavara;

  

Hreint vatn – Hreint loft – vistvæn framleiðsla – auðrekjanleiki

  

Vistvænn hágæða landbúnaður er nú þegar verðmæt verslunarvara um allan heim.

  Ef við vinnum úr möguleikum íslensks landbúnaðar á þennan hátt værum við að nýta okkur hnattvæðinguna Þar sem aðrar þjóðir gætu trauðla framleitt þessa hágæða hollustu vöru, sem fólk keypti sér til heilsubótar.  

Eldfjalla- og auðlindagarður á Reykjanesskaga, einstakt tækifæri fyrir útivist, fræðslu og atvinnusköpun

Eftir Ástu Þorleifsdóttur

asta

 

Er það raunhæf hugmynd að gera Reykjanesskagann að eldfjalla- og auðlindagarði frá Reykjanestá  að Þingvallavatni? Hvernig getur slíkur garður og starfsemi tengd honum skapað mörg hundruð, jafnvel þúsundir fjölbreyttra starfa?

Reykjanesskaginn býr yfir einstökum möguleikum. Jarðfræðileg sérstaða á heimsvísu, frábær tækifæri til útivistar, fræðslu og heilsueflingar, að ógleymdum fjórum jarðvarmavirkjunum og þekkingu sem af þeim hefur hlotist. Að læra, nýta og njóta væru réttmæt einkunnarorð Eldfjalla- og auðlindagarðs á Reykjanesskaga.

Bestu aðstæður

Ísland liggur í alfaraleið, miðja vegu milli Norður Ameríku og Evrópu og stutt að skreppa hingað með hópa námsmanna á öllum skólastigum í flugi. Í aðeins fárra mínútna fjarlægð frá alþjóðaflugvelli er margt sem náttúruunnendur dreymir að sjá. Hér er gott aðgengi og hægt að upplifa undramargt með því einu að stíga út úr bílnum. Umhverfis Eldfjallagarðinn eru bæir sem bjóða upp á gistingu, afþreyingu og þjónustu fyrir ferðamenn en einnig háþróaða þekkingarþjónustu. Einfaldlega allt til alls.

 Lifandi jörð

Jarðsagan er heillandi og á fáum stöðum opnast jarðsögubókin betur en hér á Reykjanesskaganum í fjölbreyttum jarðmyndunum. Hér má sjá úthafshrygg koma á land og á  “Brúnni milli heimsálfa” er hægt að ganga milli Ameríku og Evrópu. Sjá hvernig landið hefur gliðnað, sprungur opnast, gígar myndast og hraun runnið. Landið stækkar sígandi, lúshægt mælt í mannsævinni en á ægihraða í samanburði við ævi Jarðar, að meðaltali 2 sentimetra á ári.

Hér eru eldgígar af öllum gerðum og merkileg fjöll mynduð við eldgos undir jökli, bólstraberg og móberg, t.d. við Kleifarvatn þar sem í kaupbæti býr skrímsli. Litskrúðugt berg í Trölladyngju gefur Landmannalaugum lítið eftir og útsýnið af Keili er stórbrotið. Dyngjur nefnast flatir hraunskildir og móðir þeirra, Skjaldbreiður, rís við endimörk garðsins í norðri en litlar systur skreyta skagann, sumar úr bergi svo djúpt úr iðrum jarðar að það geymir jafnvel lykilinn að uppruna vatnsins á Jörðinni.

Á Reykjanesi brýtur úthafsaldan bergið af ógnarkröftum, molar í spað og skolar upp í Sandvíkina. Næsta land beint í suður er Suðurskautslandið. Krísuvíkurberg og Festarfjall full af fugli, súlur og lundar sveima um. Að leggjast í mjúkan mosa er vandfundinn lífsreynsla í öðrum löndum. Reykjanesskaginn er unaðsreitur náttúruskoðara og ljósmyndara, hrein upplifun. Hér eru háhitasvæði með litríkum ólgandi leirhverum, öskrandi gufuaugum og hæglátum vatnshverum. Hér gengur sjórinn inn í bergið, mætir orku úr iðrum jarðar, hitnar og breytist í sjóðheitan jarðsjó sem nýttur er í Bláa lóninu og geymir lækningamátt. Jafnvel í fúlasta sjóðandi leirpytti er líf, frumstæðar lífverur sem una sér við öfga. Geymir Reykjanes að lykil að uppruna lífsins eða vísbendingar um mögulegt líf á öðrum hnöttum?

 Áhugaverð atvinnutækifæri

Tækifæri til nýtingar náttúrunnar til heilsubótar eru gríðarleg. Ekki síðri möguleikar eru í sérhæfðum þekkingarsetrum sem selja vísindamönnum um víða veröld aðgengi að einstakri náttúru og þekkingu með aðstöðu fyrir líf-, tækni- og jarðvarmarannsóknir. Orkuverið jörð leikur lykilhlutverk í fræðslu. Þá eru ótalin ferðaþjónustan og ýmis störf innan garðsins. 

Eldfjalla- og auðlindagarður getur skapað fjölmörg störf og milljarðatekjur, ef við virðum náttúruna og sýnum varfærni í nýtingu hennar.

 

Að læra, nýta og njóta gætu verið einkunnarorð Eldfjalla- og auðlindagarðs á Reykjanesskaga.

 Ásta Þorleifsdóttir er jarðfræðingur

 


Endalok múgmennisins. Hljóðlát, friðsamleg bylting breiðist út um Evrópu

Eftir Elviru Méndez Pinedo

Elvira

Elvira Méndez Pinedo
Eftir Elviru Méndez Pinedo: "Ný stjórnmálahreyfing hefur fæðst og tilgangur hennar er að virkja þá sem hugsa gagnrýnið, hafa eigin skoðanir og koma með djarfar lausnir."

Árið 1928 gaf Ortega y Gasset, ungur spánskur heimspekingur, út bók þar sem hann reyndi að sjá fyrir um framtíðarþróun 20. aldarinnar. Titill bókarinnar var Bylting múgsins (La rebelión de las masas) og náði hún á skömmum tíma mikilli útbreiðslu enda prentuð á mörgum tungumálum. Hann spáði þarna fyrir um það sem síðar hefur verið kallað "múgsamfélagið". Það er samfélag þar sem fólk hefur sankað að sér veraldlegum eigum, en er jafnframt að mestu hætt að hugsa gagnrýnið og hefur misst áhugann á stjórnmálum. Manngerð þessa samfélags, múgmennið, er eins og fordekraður krakki sem telur sig eiga rétt á öllu. Múgmennið er þurftafrekt og síóánægt. Það neytir alls sem náttúran gefur af sér án þess að leiða hugann að því hvaðan það kemur. Múgmennið trúir hvorki á æðri skyldu né að því beri að fórna einhverju, það heimtar bara sitt og vill hafa það gott. Fámenn valdstjórn á auðvelt með að stýra múgmenninu að vild enda hefur það hvorki langtímaminni né á það sér framtíðarsýn fyrir samfélagið.

Því miður rættust spádómar Ortega y Gasset og 20. öldin varð öld múgmennisins og sigurgöngu múgsamfélagsins. Nú er hins vegar ný friðsamleg hreyfing að taka á sig mynd. Það fer svo hljótt um hana að við tökum varla eftir henni. Þessi hreyfing er lítt sýnileg en staðreyndirnar tala sínu máli. Hugrakkt fólk sem tilheyrir 21. öldinni hefur ákveðið að það vilji ekki lengur vera múgmenni og það fer eins og eldur um sinu. Víða um heim, en einkum í Evrópu, hlýða karlar og konur kalli skyldunnar, endurheimta gagnrýnisraddir sínar og kalla á nýjan heim, á alþjóðleg lög um nýja heimsskipan, á niðurfellingu manngerðra víglína, á breytta hagþróun sem ver jörðina fyrir yfirvofandi hamförum, sem hefur löngu verið varað við. Þetta fólk hefur smátt og smátt orðið meðvitað um rétt sinn og er byrjað að nýta sér hann. Þetta er hljóðlát bylting hins venjulega fólks. Múgmennið er dautt og ný manngerð er komin fram á sjónarsviðið. 50 árum eftir stofnun Evrópusambandsins virðir þessi nýi venjulegi maður að vettugi þær reglur sem eru við lýði og rústar múrum milli þjóðríkja. Veraldarvefurinn og lýðræðishefðin eru loksins að gefa hinum venjulega manni þá rödd og þann vettvang sem hann þurfti á að halda.

Samruni Evrópu hefur gert þessa vitundarvakningu mögulega. Nýtt evrópskt hugarfar hefur orðið til eftir að þjóðríkin afsöluðu sér fullveldi sínu til stofnana Evrópu. Við teljum réttindi vera sjálfsögð sem voru ekki einu sinni til fyrir 50 árum, eins og ferðafrelsi, réttinn til að vinna og setjast að hvar sem við viljum í Evrópu, til þess að ganga í hjónaband með öðrum Evrópubúa, til þess að senda börn okkar í skóla til annarra Evrópulanda, til þess að vera sjúkratryggð þegar við ferðumst um álfuna, til þess að geta keypt eignir í útlöndum, til þess að geta stofnað fyrirtæki og fjárfest að lyst víða um heim. Mestu varðar þó að við búum við evrópskt réttarkerfi sem sáttmálar Evrópusambandsins færðu borgurunum andstætt sáttmálum evrópska efnahagssvæðisins eða öðrum alþjóðasáttmálum, sem veita því miður venjulegum borgurum takmarkaðan aðgang, ef þá nokkurn. Alþjóðlegir dómstólar eru einungis opnir fyrir ríkjum og alþjóðastofnunum. Í 50 ár hafa borgarar Evrópu hins vegar getað farið með kærumál sín gegn eigin ríki eða stofnunum Evrópu til Evrópudómstólsins í Lúxemborg eða jafnvel til mannréttindadómstólsins í Strassborg.

Davíð gegn Golíat. Borgarar gegn ríkjum. Aðgangur borgaranna að yfirþjóðlegum dómstólum gæti hafa verið kveikjan að hinni hljóðlátu byltingu sem nú á sér stað í Evrópu. Þessi þróun hefur getið af sér hreyfingu sem hvorki verður stöðvuð né verður henni umsnúið vegna þess að hún hefur breytt því hvernig Evrópubúar skynja heiminn. Hún hefur getið af sér þennan nýja mann.

Á sama tíma og stjórn Bandaríkjanna reynir að eyðileggja þann árangur sem hefur náðst með alþjóðlegum lagasetningum og að grafa undan veikburða yfirráðum Sameinuðu þjóðanna með því að tendra ófriðarbál í nafni "fyrirbyggjandi stríða" er hinn nýi maður sannfærður um að öll lönd hafi rétt og beri siðferðileg skylda til að skipta sér af innanríkismálum annars ríkis ef þjóðarmorð á sér stað, ef þjóðin sveltur, ef kemur til hamfara á borð við flóðbylgjur eða jarðskjálfta og þegar umhverfisslys eru yfirvofandi. Hinn nýi maður umber hvorki spillingu, ranglæti né dánartilfelli sem eru afgreidd sem hliðarverkanir ástands (collateral damage).

Þessi nýi maður fer út á götu og mótmælir friðsamlega. Hann trúir á nýja tegund grasrótarlýðræðis, hreyfingu sem kemur neðan frá og leitast við að komast til valda á eins friðsamlegan og skilvirkan hátt og unnt er vegna þess að hinar gömlu stofnanir takast ekki á við aðsteðjandi vandamál nýrrar aldar. Þessi maður trúir að vald geti breyst og að samfélagið geti endurnýjast. Hann tekur þátt í borgaralegu félagsstarfi, sinnir sjálfboðastarfi í frjálsum félagasamtökum og er kannski virkur í nýjum stjórnmálaflokkum.

Heimurinn er ein heild í augum þessa manns. Það er ekki hægt að sundra heiminum af fjölþjóðafyrirtækjum, alþjóðlegum glæpahringjum eða jafnvel ríkjum. Þessi maður skilur að þjóðríki ein og sér hafa ekki burði til að takast á við vandamál samtímans eins og hryðjuverkastarfsemi, mansal, styrjaldir, eyðni eða fátækt. Þjóðir verða að taka höndum saman. Ef Evrópa hefur ekki bolmagn eða rétt til inngripa þá leitar þessi maður annarra alþjóðlegra lausna á vandanum sem við blasir. Dómari á Spáni, hinn frægi "juez Baltasar Garzón" leggur til nýjan lagalegan grunn að þessari umbyltingu alþjóðlegrar skipunar. Ég er viss um að Ortega y Gasset væri stoltur af honum vegna þess að hann er sönnun þess að hið úrelta múgmenni 20. aldar er liðið undir lok.

Þessi nýi maður er hvergi jafn eftirtektarverður og í viðhorfum sínum til umhverfismála. Út um alla Evrópu er ný kynslóð fólks sannfærð um að "framfarir" geti verið á kostnað samfélagslegra umbóta. Hagvöxtur getur verið á kostnað náttúru sem er of viðkvæm til að lifa af. Allt í einu virðist sem tapaðir málstaðir vakni á ný til lífsins sem sést hvað best á því að krafan um að samþykkja Kyoto bókunina hefur aldrei verið háværari en einmitt núna. Heimildarmynd Al Gore, "Óþægilegur sannleikur" er bara toppurinn á ísjakanum.

Ísland er ekki undanskilið byltingu hins venjulega manns. Æ fleira fólk lætur í sér heyra um framtíð lands sín og samfélagsins. Bókin um Draumalandið varð metsölubók þvert á allar væntingar. Þetta sést líka á titringnum í kringum þá hreyfingu sem Framtíðarlandið stendur fyrir. 15000 manns fylgdu kalli einstaks og hugrakks manns og gengu í þögn niður Laugarveginn og syrgðu náttúru sem var þeim glötuð um aldur og ævi. Þessa hreyfingu vantaði sterka rödd og Ómar var maðurinn sem tendraði eldinn. Ný stjórnmálahreyfing hefur fæðst og tilgangur hennar er að virkja þá sem hugsa gagnrýnið, hafa eigin skoðanir og koma með djarfar lausnir. Í leit að nýja manninum.

Elvira er doktor í Evrópurétti, og virkur félagi í Íslandshreyfingunni - lifandi landi. 

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband