Framtak fólksins: Ákall

Ósk Vilhjálmsdóttir fjallar um atvinnumál, álver og byggðastefnu: "Íslensk hátæknifyrirtæki eru þegar byrjuð að flytja úr landi! Af hverju er heildardæmið aldrei rætt? Af hverju ráða stundarhagsmunir og heimtufrekir héraðspólitíkusar ferðinni á Íslandi?"

  

"ÞAÐ er ekki hægt að bjarga landsbyggðinni með því að byggja álver í hverju byggðarlagi. Það verður að byggja á fólkinu og framtaki þess," sagði Guðmundur Beck bóndi á Kollaleiru í fróðlegu innslagi í Kastljósi hinn 28. febrúar. Þar var fjallað um uppbyggingu álvers í Reyðarfirði og áhrif þess á samfélagið. Guðmundur hélt því fram að álversframkvæmdirnar hefðu lagt samfélagið sem var þarna fyrir í rúst. "Það fær enginn að fara lengur á sjóinn. Það er búið að loka bæði frystihúsinu og fiskimjölsverksmiðjunni," sagði hann og bætti svo við að þetta væri orðið eins-fyrirtækis-samfélag þar sem einn forstjóri ræður hvað lifir og hvað deyr. Þetta eru þung orð manns sem ann sínu byggðarlagi heitt og telur að búið sé að eyðileggja það.

 Orð Guðmundar um að byggðastefna verði að byggjast á framtaki fólksins hefur leitað á hug minn. Þetta fræga framtak sem er lofað og prísað á tyllidögum og stundum kallað einstaklingsframtak. Ég sé ekki betur en að íslenskir ráðamenn fyrirlíti framtak fólksins. Hin pólitíska atvinnustefna ríkisstjórnarinnar gengur út á gríðarleg inngrip stjórnvalda í atvinnulífið. Hún er í raun yfirlýsing um að framtakssemi einstaklinganna, hugvit, verkvit, þekking og reynsla hafi ekkert að segja. Hún felur líka í sér mikla vantrú á hreyfiafli hins frjálsa markaðar.Í grein sem Hörður Arnarsson, forstjóri hátæknifyrirtækisins Marels hf., skrifaði í Morgunblaðið nýverið bendir hann á að Landsvirkjun nýtur tekjuskattsfrelsis og ríkisábyrgða og Fjarðaál er ýmist undanskilið eða fær verulegan afslátt af gjöldum og sköttum. Íslensk hátækni- og þjónustufyrirtæki njóta ekki þessarar forgjafar. Samkeppnisaðstaðan er því afar ójöfn. Hörður segir að starfsmenn fyrirtækja í útflutnings- og samkeppnisiðnaði hafi fyrir vikið orðið fyrir mikilli kjaraskerðingu. Hluthafar hafi tapað fé og komið hafi til gjaldþrota fyrirtækja vegna langvarandi erfiðra rekstrarskilyrða. Í sama streng tekur Ágúst Guðmundsson, stjórnarformaður Bakkavarar. "Við Íslendingar," sagði hann í viðtali við Morgunblaðið í byrjun febrúar, "erum að eyða hundruðum milljarða í fjárfestingar sem er fyrirsjáanlegt að muni skila lítilli arðsemi". Það fer ekkert á milli mála að þeim Ágústi og Herði er mikið niðri fyrir. Þeir telja að upp sé runnin ögurstund í íslensku samfélagi. Ég sé ekki betur en að þeir séu algerlega sammála Guðmundi á Kollaleiru: Stóriðjustefna ríkisstjórnarinnar er að leggja framtak fólksins í rúst: Framtak sem kallast íslensk útflutningsfyrirtæki.Kannski er einhverjum huggun í því að ráðherrarnir Geir Haarde og Halldór Ásgrímsson hafa sagt opinberlega að við þurfum engar áhyggjur að hafa. Það geti ósköp vel farið saman að byggja upp stóriðju og reka á sama tíma öflug íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi, hátækni og ferðaþjónustu. Ágúst og Hörður telja það óhugsandi og segja að samkeppnisaðstaða útflutningsfyrirtækjanna gagnvart niðurgreiddri stóriðjunni sé vonlaus. Hverjum á maður nú að trúa? Ég get ekki að því gert að ég trúi frekar fólki sem hefur nýtt sér þekkingu sína, reynslu, hugmyndaflug og áræði til að byggja upp einhver öflugustu útflutningsfyrirtæki Íslandssögunnar, ég trúi þeim frekar en ráðherrum sem á unga aldri gengu beint inn sinn flokk og hafa aldrei tekið neina áhættu og aldrei komið nálægt atvinnurekstri eða yfirleitt látið sér detta nokkuð frumlegt í hug. Mér er raunar fyrirmunað að skilja að ráðherrarnir skuli komast upp með að láta varnaðarorð forsvarsmanna Marels og Bakkavarar sem vind um eyru þjóta. Það hafa jú margir fleiri varað við stórfelldri uppbyggingu álbræðslu á Íslandi. Hagfræðingarnir Sigurður Jóhannesson og Þorsteinn Sigurlaugsson hafa gert það margoft, við litlar vinsældir. Ragnar Árnason prófessor í hagfræði við HÍ sagði í Viðskiptablaðinu í haust að hagnaður þjóðarinnar af álbræðslunni væri lítill sem enginn. Af hverju kipptist enginn við? Ráðherrarnir hafa hingað til haft mikið álit á skýrslum og álitsgerðum Ragnars Árnasonar og hampað þeim opinberlega þegar mikið liggur við. Allt í einu hentar það ekki lengur. Samt komust hagfræðingar og fjármálasérfræðingar, sem skrifuðu skýrslu um álvæðinguna á Íslandi fyrir greiningardeild KB banka í haust, að svipaðri niðurstöðu og Ragnar. Heildararður þjóðarinnar af ábræðslunni er sáralítill miðað við aðrar útflutningsgreinar: Þjóðararðurinn af einu tonni af bræddu áli er 28 þúsund krónur (þá er ekki dreginn frá mikill umhverfiskostnaður), arðurinn af einum erlendum ferðamanni er að meðaltali 90 þúsund krónur og þjóðin fær í sinn hlut rúmlega 300 þúsund krónur af einu tonni af þorski; ellefu sinnum meira en fyrir eitt tonn af áli. Segja þessar tölur ekki eitthvað? Íslensk hátæknifyrirtæki eru þegar byrjuð að flytja úr landi! Af hverju er heildardæmið aldrei rætt? Af hverju ráða stundarhagsmunir og heimtufrekir héraðspólitíkusar ferðinni á Íslandi? Hvað eru íslenskir stjórnmálamenn að pæla? Hvað eru Íslendingar að pæla? Hvar er sjálfstæðisfólkið sem hefur alltaf gagnrýnt forræðishyggju og inngrip ríkisvaldsins í atvinnulífið? Hvar er samfylkingarfólkið sem veit ósköp vel að stóriðjustefnan er að drepa niður framtak fólksins? - Er ekki kominn tími til að þið látið flokkshagsmuni víkja fyrir þjóðarhagsmunum? Rísið upp úr lágkúrunni og látið í ykkur heyra! Höfundur er myndlistarmaður og leiðsögumaður.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Haukur Nikulásson

Smá ábending: Þessi grein yrði læsilegri ef notuð væru greinarskil.

Haukur Nikulásson, 11.4.2007 kl. 10:39

2 identicon

Heil og sæl, Ósk og aðrir skrifarar !

Hvernig í andskotanum, datt þér í hug; Ósk mín, að byrja forsöng, í helvítis fjölmenningar kórnum; í Silfri Egils á dögunum ?

Hélt, að þið Ómar legðuð upp með eitthvað bitastæðara, en að kyrja með stjórnarflokkunum og vinstri flokkunum, um fjölmenningar delluna.

Lárus blessaður Vilhjálmsson lagði nú ekki vel upp, með Selfysskum, í gærkvöldi, með áherzlu sinni, um aðildarviðræður Íslendinga, að Stór- Þýzkalandi (Evrópusambandinu). Reynið, að koma niður á jörðina, sé þess nokkur kostur; nafna mín.

Með beztu kveðjum, úr Árnesþingi /

Óskar Helgi Helgason, frá Gamla Hrauni og Hvítárvöllum

  

Óskar Helgi Helgason (IP-tala skráð) 11.4.2007 kl. 12:17

3 Smámynd: Baldvin Jónsson

Stórgóð skrif Ósk, takk fyrir mig.

Baldvin Jónsson, 11.4.2007 kl. 12:32

4 Smámynd: Guðrún María Óskarsdóttir.

Því miður.

Allt of langt mál um of lítið efni.

kv.gmaria.

Guðrún María Óskarsdóttir., 12.4.2007 kl. 01:23

5 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Þegar naður vill fara suður á árabát, verður að fá alla ræðarana til að róa í sömu átt, til að snúast ekki bara í hringi, og Íslandshreyfingin ætti að fara að skoða áralagið.

Það virðast of margir vera að tala en of fáir að vinna.

Finnst samt greinin bara fín.

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 12.4.2007 kl. 07:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband