Eldfjalla- og auðlindagarður á Reykjanesskaga, einstakt tækifæri fyrir útivist, fræðslu og atvinnusköpun

Eftir Ástu Þorleifsdóttur

asta

 

Er það raunhæf hugmynd að gera Reykjanesskagann að eldfjalla- og auðlindagarði frá Reykjanestá  að Þingvallavatni? Hvernig getur slíkur garður og starfsemi tengd honum skapað mörg hundruð, jafnvel þúsundir fjölbreyttra starfa?

Reykjanesskaginn býr yfir einstökum möguleikum. Jarðfræðileg sérstaða á heimsvísu, frábær tækifæri til útivistar, fræðslu og heilsueflingar, að ógleymdum fjórum jarðvarmavirkjunum og þekkingu sem af þeim hefur hlotist. Að læra, nýta og njóta væru réttmæt einkunnarorð Eldfjalla- og auðlindagarðs á Reykjanesskaga.

Bestu aðstæður

Ísland liggur í alfaraleið, miðja vegu milli Norður Ameríku og Evrópu og stutt að skreppa hingað með hópa námsmanna á öllum skólastigum í flugi. Í aðeins fárra mínútna fjarlægð frá alþjóðaflugvelli er margt sem náttúruunnendur dreymir að sjá. Hér er gott aðgengi og hægt að upplifa undramargt með því einu að stíga út úr bílnum. Umhverfis Eldfjallagarðinn eru bæir sem bjóða upp á gistingu, afþreyingu og þjónustu fyrir ferðamenn en einnig háþróaða þekkingarþjónustu. Einfaldlega allt til alls.

 Lifandi jörð

Jarðsagan er heillandi og á fáum stöðum opnast jarðsögubókin betur en hér á Reykjanesskaganum í fjölbreyttum jarðmyndunum. Hér má sjá úthafshrygg koma á land og á  “Brúnni milli heimsálfa” er hægt að ganga milli Ameríku og Evrópu. Sjá hvernig landið hefur gliðnað, sprungur opnast, gígar myndast og hraun runnið. Landið stækkar sígandi, lúshægt mælt í mannsævinni en á ægihraða í samanburði við ævi Jarðar, að meðaltali 2 sentimetra á ári.

Hér eru eldgígar af öllum gerðum og merkileg fjöll mynduð við eldgos undir jökli, bólstraberg og móberg, t.d. við Kleifarvatn þar sem í kaupbæti býr skrímsli. Litskrúðugt berg í Trölladyngju gefur Landmannalaugum lítið eftir og útsýnið af Keili er stórbrotið. Dyngjur nefnast flatir hraunskildir og móðir þeirra, Skjaldbreiður, rís við endimörk garðsins í norðri en litlar systur skreyta skagann, sumar úr bergi svo djúpt úr iðrum jarðar að það geymir jafnvel lykilinn að uppruna vatnsins á Jörðinni.

Á Reykjanesi brýtur úthafsaldan bergið af ógnarkröftum, molar í spað og skolar upp í Sandvíkina. Næsta land beint í suður er Suðurskautslandið. Krísuvíkurberg og Festarfjall full af fugli, súlur og lundar sveima um. Að leggjast í mjúkan mosa er vandfundinn lífsreynsla í öðrum löndum. Reykjanesskaginn er unaðsreitur náttúruskoðara og ljósmyndara, hrein upplifun. Hér eru háhitasvæði með litríkum ólgandi leirhverum, öskrandi gufuaugum og hæglátum vatnshverum. Hér gengur sjórinn inn í bergið, mætir orku úr iðrum jarðar, hitnar og breytist í sjóðheitan jarðsjó sem nýttur er í Bláa lóninu og geymir lækningamátt. Jafnvel í fúlasta sjóðandi leirpytti er líf, frumstæðar lífverur sem una sér við öfga. Geymir Reykjanes að lykil að uppruna lífsins eða vísbendingar um mögulegt líf á öðrum hnöttum?

 Áhugaverð atvinnutækifæri

Tækifæri til nýtingar náttúrunnar til heilsubótar eru gríðarleg. Ekki síðri möguleikar eru í sérhæfðum þekkingarsetrum sem selja vísindamönnum um víða veröld aðgengi að einstakri náttúru og þekkingu með aðstöðu fyrir líf-, tækni- og jarðvarmarannsóknir. Orkuverið jörð leikur lykilhlutverk í fræðslu. Þá eru ótalin ferðaþjónustan og ýmis störf innan garðsins. 

Eldfjalla- og auðlindagarður getur skapað fjölmörg störf og milljarðatekjur, ef við virðum náttúruna og sýnum varfærni í nýtingu hennar.

 

Að læra, nýta og njóta gætu verið einkunnarorð Eldfjalla- og auðlindagarðs á Reykjanesskaga.

 Ásta Þorleifsdóttir er jarðfræðingur

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Komdu með fjárfestana.... Þangað til er hugmynd þin einskyns verð.

Sandy (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 04:20

2 Smámynd: Bjarnveig Ingvadóttir

Hefuru reiknað út hvað þarf marga gesti á ári til að standa undir rekstrinum.

Bjarnveig Ingvadóttir, 31.3.2007 kl. 12:28

3 Smámynd: Þóra Guðmundsdóttir

Láttu þig dreyma.  

Þóra Guðmundsdóttir, 31.3.2007 kl. 12:40

4 Smámynd: Gunnar Th. Gunnarsson

Þetta er hið besta mál. Ég styð allar hugmyndir um framþróun í atvinnu og ferðamáum á íslandi.

Kveðja, virkjana og álversfíkillinn

Gunnar Th. Gunnarsson, 31.3.2007 kl. 16:12

5 identicon

Allar góðar hugmyndir byrja á draumum og verða svo að veruleika ef þær fá tækifæri til..

Fallegur draumur... vonandi á hann eftir að rætast einn dag.

Björg F (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 17:50

6 identicon

Sæl Ásta
Þetta er fín hugmynd og endilega gerðu meira úr henni en af hverju er hún alltaf tengd við ofsóknir gegn álverum?
Mér finnst íslensk náttúrufyrirlitning ganga út á það að það sé allt í lagi að kaupa jeppa, fljúga og malbika yfir landið, bara að hin mengandi stóriðja sé úr augsýn. Helst hjá einhverju gulu eða svörtu fólki sem er of fátækt til að heimta grundvallar lífsgæði.
Getur þú ekki formað hugmyndina þína í sátt við sjálfbæra þróun þannig að Íslendingar geti verið raunverulegir náttúruverndarsinnar?

Kveðja
Gaui

Guðjón I. Guðjónsson (IP-tala skráð) 31.3.2007 kl. 18:34

7 Smámynd: Svanur Sigurbjörnsson

Það er geysilega margt að sjá hér á suðvestur horninu og inn að Þingvöllum.  Á svæði sem tekur innan við 2 klst að ferðast endana á milli er hægt að læra og njóta hluta sem eru ævintýralegir fyrir erlenda (og innlenda) ferðamenn og námsfólk.   Markaðssetning þessa hluta líkt og til hefur tekist með hvalaskoðunina er mikilvæg og getur fært okkur fleiri ferðamenn til landsins.   "Eldfjallagarður" hljómar sérkennilega í okkar eyrum en trúlega bara eðlilega í eyrum ferðamanna.  Leita þarf leiða til að þróa "pakka" sem hægt er að njóta allt árið því eitt helsta vandamál ferðamannaþjónustunnar er árstíðamunurinn.  Okkur hefur tekist að laða að fólk til ráðstefnuhalds allt árið en eflaust liggja enn fleiri tækifæri í þeim efnum.  Góð hugmynd!

Svanur Sigurbjörnsson, 1.4.2007 kl. 23:36

8 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Við Lárus fórum í bíltúr í dag Pálmasunnudag um Reykjanesið. Þetta er stórkostlegt svæði! Setti nokkrar myndir á bloggið mitt  www.ragjo.blog.is 

bestu kveðjur

RagJó 

Ragnhildur Jónsdóttir, 2.4.2007 kl. 00:59

9 identicon

Fór um Reykjanesið á þínum vegum 1996 þar sem að jarðfræði svæðisins (Hluti af jarðfræði áfanganum í MS) var kynnt. Mér fannst þetta rosalega áhugavert og fræðandi en þar voru ekki allir sammála mér. Ég skal fúslega viðurkenna að aðgengi má bæta og fræðslu á svæðinu en ég efa að þetta verði mikið til að draga ferðamenn til landsins en þetta yrði góð leið til að auka fjölbreytni og möguleika hjá þeim sem koma. En ég vil endilega hvetja þig til að finna fjárfesta og útfæra þessar hugmyndir þínar frekar en ég efa að þetta verði nokkurntíman að veruleika í þeirri mynd sem þú leggur til. En sem viðbót við Gullhring er þetta góður kostur.

Hans Orri Straumland (IP-tala skráð) 3.4.2007 kl. 14:27

10 Smámynd: Þorsteinn Valur Baldvinsson

Gott mál Ásta

Mætti athuga hvort Hitaveita Suðurnesja og Bláa lónið, tækju þetta verkefni ekki bara að sér, í samvinnu við sveitarfélögin þarna.

Endilega koma þessu á framfæri við þessa aðila, Ásta

Þorsteinn Valur Baldvinsson, 5.4.2007 kl. 22:53

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband