3.4.2007 | 19:00
Áhrif hnattrænnar hlýnunar á framtíð íslensks landbúnaðar
Eftir AgrDr Ingileif Steinunni Kristjánsdóttur
Um áratuga skeið hefur verið reynt að fella íslenskan landbúnað að hagræðingarstefnu þeirri, sem mjög hefur átt upp á pallborðið á Vesturlöndum síðustu ár. Hefur kerfi þetta ekki gefist betur en svo að til landauðnar horfir nú á stórum svæðum þar sem hann áður var blómlegur stundaður. Hefur þessi þróun ekki síst orðið vegna mikils reglugerðarfargans, sem ekki tekur alltaf mið af þeim möguleikum sem felast í íslenskum landbúnaði, og þeirrar staðreyndar að hnattræn lega þessa lands er sú, að það hangir neðan í heimskautsbaugnum lengst úti í hafi. Þetta leiðir til þess íslenskur landbúnaður getur aldrei framleitt afurðir á verksmiðjubúum, sem geta keppt við hámarksafrastursbú þeirra svæða heimsins, sem hvað best eru fallin til verksmiðjubúrekstrar. Eini búreksturinn sem hérlendis ætti að falla undir stóiðjuhatt, væri raforkusamningar á stóriðjuverði við samtök íslenskra garðyrkjubænda ásamt leyfi til þeirra, að fullvinna framleiðslu sína á heimavelli. Íslenskir gróðurhúsabændur nota nær eingöngu lífrænar varnir og notkun eiturefna heyrir þar til algerra undantekninga. En vegna síaukinna krafna um hagræðingu rækta þeir nú orðið nær undantekningarlaust í vatni, þ.e. svokölluð droparækt í vikri. Við vatnsræktun á tómötum er blandað 16 frumefnum út í vatnið sem plantan vex í, og þessi 16 frumefni eru síðan einu frumefnin sem finnast í plöntusafanum sé hann efnagreindur. Ef sama planta er ræktuð í mold og safinn úr henni efnagreindur finnast í safanum allt að 52 frumefni. Það segir sig sjálft að þeir tómatar sem koma á vatnsræktaða plöntu og plöntu sem hefur vaxið í mold eru ekki eins að gæðum. Garðyrkja sem fær rafmagn á stóriðjuverði og tekur tillit til áðurnefndra þátta er komin með skilyrði til framleiðslu á sannkallaðri gæðavöru.
Enn eigum við ótrúlega möguleika á sviði landbúnaðar þar sem við gætum verið með hágæða framleiðslu á heimsvísu, á vistvænan hátt og í sátt við náttúruna.Þetta felst ekki hvað síst þeim möguleikum sem hnattræn hlýnum, miklir ónotaðir ræktunarmöguleikar bújarða og sérstaða íslensku mjólkurinnar valda.
Hnattræn hlýnun ásamt nýjum íslenskum byggtegundum sem fram hafa komið, gera að verkum að nú er hægt að rækta bygg í öllum landshlutum. Alþekkt er að mun fleiri fóðureiningar fást af hverjum hektara lands þar sem bygg er ræktað, en af túni. Gefur þetta því möguleika á að nýta íslensku kýrnar á allt annan hátt en áður. Nú er kúabúskapur án innflutts erfðabreytts maís allt í einu framkvæmanlegur. Aukin byggræktun gerir það að verkum að hægt er að hafa sama fjölda kúa á mun minna landsvæði en áður, ef nær eingöngu á að nota íslenskt fóður. Þetta, ásamt því að mjólk okkar kúakyns hefur þá sérstöðu að í henni er sérstakt prótein beta casein A2 sem virðist hindra nýgengi insúlínháðrar sýkursýki, en mjög lítið af A1 og B afbrigðum þessa próteins, sem flýta þróun sykursýki hjá tilraunadýrum. Í mjólk frá Skandinavíu sem rannsökuð hefur verið var mjög lítið af verndandi próteininu en aftur á móti mikið af þeim sem flýta þróun sykursýki. Þó hefur hlutfallið í íslensku mjólkinni dalað nokkuð síðan innfluttur maís tók að öllu að koma í stað grasköggla.
Með því að ala kýrnar á byggi, tapast ekki sá grófleiki úr fæðunni sem virðist okkar kúakyni svo nauðsynlegur til heilbrigðis. Þótt auðvitað verði framleiðslan á hverja kú okkru minni, en ef alið er á maís.
Þessi mjólk íslenska kúakynsins er afar dýrmætt hráefni til hágæða úrvinnslu á heilsumjólk, sem vinna mætti úr t.d. þurrmjólkurduft til útflutnings til þess að nota í hágæða barnamat ef rétt er að málum staðið. Þá er það ekki spurning að ostar úr okkar vistvænu mjólk hefðu ekki síðri slagkraft inn á heimsmarkaðinn en svissneskir ostar. Sérstaklega ef sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum í landbúnaði væri gert léttara fyrir. Óframleiðslutendgir styrkir til kúabænda, sem á núverandi fjárlögum nema 20 milljónum króna gætu hér aukist á kostnað beinna framleiðslustyrkja til verksmiðjubúa í mjólkurframleiðslu, sem á núgildandi fjárlögum nema 4 milljörðum og 91 milljón króna.
Til þess að framtíð íslensks landbúnaðar megi blómstra þarf að gera allri nýsköpun og sprotafyrirtækjum léttara fyrir, ekki bara að því er viðkemur mjólkinni heldur líka viðvíkjandi kjötframleiðslu- og fullvinnslu allri, ásamt og allri annarri framleiðslu. Hér er til dæmis engin kúariða, þannig að hreint nautakjöt gæti líka orðið söluvara. Mjög nauðsynlegt er í þessu tilliti að unnt verði að stofna litlar til meðalstórar framleiðslueiningar, í stíl við Stóruvallabúið, til þess að fullvinna vörur úr hráefninu. Þetta gerir það að verkum, að rekjanleiki vörunnar verður svo miklu auðveldari og óhagganlegri. Hér væri um að ræða hágæða framleiðslu á heimsvísu, sem unnt væri að selja út um allan heim, sem verðmæta hágæðavöru.
Til eru jurtir sem vaxa mun betur á Íslandi en í öðrum löndum. Þessar jurtir þurfa svalt úthafsloftslag til að ná fullum krafti. Vegna hnattrænnar hlýnunar verður sífellt erfiðara að rækta þessar jurtir t.d. á meginlandi Evrópu. Hér er um að ræða jurtir eins og taraxacum fífil sem mikið er notaður sem salat við Miðjarðarhafið og er í raun túfífillinn okkar íslenski. Önnur jurt er ætihvönnin sem hefur kjörskilyrði hér á landi ásamt myntum og blóðbergi. Fer vel að nota ætihvönn í sáðskiptaræktun á móti byggi. Hér er enn möguleiki fyrir spotafyrirtæki og nýsköpun að koma inn af mun meiri krafti en nú er, sé reglugerðaumhverfið gert einfaldara og meira hvetjandi fyrir atvinnustarfsemi af þessum toga.
Á þann hátt sem nú hefur verið fjallað um væri sess íslensks landbúnaðar mjög sterkur og við þyrftum litlu að kvíða þótt WTO samningarnir eða annað þess háttar sem fylgir hnattvæðingunni tækju burt verndartolla.
Það sem við hefðum fram að bjóða er þá einstök verðmæt hágæðavara;
Hreint vatn Hreint loft vistvæn framleiðsla auðrekjanleiki
Vistvænn hágæða landbúnaður er nú þegar verðmæt verslunarvara um allan heim.
Ef við vinnum úr möguleikum íslensks landbúnaðar á þennan hátt værum við að nýta okkur hnattvæðinguna Þar sem aðrar þjóðir gætu trauðla framleitt þessa hágæða hollustu vöru, sem fólk keypti sér til heilsubótar.Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 19:03 | Facebook
Athugasemdir
Sæl Ingileif. Þegar þú segir:"Vistænn hágæða landbúnaður er nú þegar verðmæt verslunarvara um allan heim" áttu þá við lífrænan landbúnað ? Ef svo er, er ekki rétt að nefna hlutina réttu nafni.... ? Þú notar orðið vistvænn í fleiri merkingum í grein þinni, en samkvæmt skilgreiningu Bændasamtakann á orðinu "vistvænt" ´´í tengslum við landbúnaðarframleiðslu að þá lítur það aðalega að aðbúnaði húsdýra og upprunamerkingum og tengist svokallaðri gæðastýringu, en á lítið skilt við umhverfisvernd eða markmið um aukna hollustu. Orðið vistvænn var sett fram til höfuðs lífrænni framleiðslu á sínum tíma og gerir lítið annað en að blekkja og villa um fyrir neytendum. Vona að Íslandshreyfingin fari ekki að taka þátt í þeim dansi. Eða stendur hún ekki fyrir umhverfisvernd?
Kristján (IP-tala skráð) 4.4.2007 kl. 13:02
Lýst mjög vel á þennan pistil og það er gaman að sjá að loksins hefur einhver pólitískur flokkur áhuga á vistvænni og lífrænni ræktun.
Lífræn ræktun er alltaf að ryðja sér meir og meir til rúms og ég tel einmitt að framtíð okkar í Landbúnaði sé gífurlega mikill þegar kemur að slíkum hlutum.
Held það væri líka farsælast fyrir okkur að athuga með aðild að ESB svo tollar á íslenskum landbúnaði verði lagður af og Evrópa opnist. En það er einmitt í Evrópu sem stæðstu tækifærin liggja í lífrænum Landbúnaði.
Ég hef einnig áhuga á að sjá hvort að þið hafið einhverja stefnu í sambandi við óhefðbundnar lækningar? '
Eg læt mig dreyma um Íslenskan Háskóla eða deild innan háskólans sem er með óhefðbundnar lækningar á Háskólastigi.. Auka samstarf á milli óhefðbundna lækninga og hins vestrænna. Vísindalegar rannsóknir á því svið og fleira. Svona ekki ólíkt og John Hopkins Spýtalinn í USA er að gera. Það væri hægt að skipa nefnd af einstaklingum sem væru allir sérmenntaðir á sínu sviði, bæði lækna, náttúrulækna, homopata, kiropraktora og fleiri sem gætu metið hvaða menntun ætti að taka inn og hvaða ekki. Nú er ég menntaður Kinesiolog frá Noregi og þar eru Norsku Kinesiologisamtökin að vinna í því að fá þessa menntun viðurkennda svo hægt sé að setja hana á háskólastig. Aðallega vegna þess að hún er flókin og erfið. Það tekur langan tíma til þess að læra hana og eins til þess að verja fagið fyrir því að þeir sem séu kannski bara búnir að taka 1-3 námskeið fari ekki að kalla sig Kinesiologar og starfi eftir því. Þetta er líka mikilvægt svo fólk geti verið viss um að það sé að leyta til fagaðilla. Meðan óhefðbundnar lækningar eru ekki viðurkenndar þá getur oft pottur verið brotinn víða, þó það sé alls ekki algilt og margir vinni mjög gott starf í óhefðbundnum lækningum.
Afhverju ekki að leyfa líka svo fólki að velja hvernig meðferðþað vilji? Afhverju ekki að niðurgreiða náttúrulyf alveg eins og vestræn lyf?
Sérstaklega með auknum rannsóknum á Náttúrulyfjum
Það er hægt að hugsa sér það þannig að Óhefðbundinn læknir (á eftir að finna eitthvað betra starfsheiti) með doktorsmenntun á Háskólastigi og tilskilin réttindi geti gefið út lyfseðil á náttúrulyf
Björg F (IP-tala skráð) 5.4.2007 kl. 23:50
Og til að bæta aðeins við..
Við værum fremst í flokki vestrænna þjóða til þess að nýta okkur báðar þessar þekkingar austræn og vestræn vísindi okkur til hagsbóta..
Gæti aukið straum fólks til Íslands sem hefði áhuga á að læra þessi fræði, faglega´og á háskólastigi. Þar sem ég veit ekki um neinn háskóla sem er slíkur. (háskóla sem kennir ekki bara eitt ákv. fag eins og náttúrulækningar.. en kennir sama einstaklingi mörg fræði innan þess geira svo viðkomandi sé vel að sér í öllu því helsta sem er að gerast innan óhefðbundum lækningum)
Eins er hægt að hugsa sér háskólan úti á landi innan um fegurð Íslands.. Gæti orðið góð lyftistöng fyrir bæjarfélag sem hefði viljan til að vera með í slíku..
Björg F (IP-tala skráð) 6.4.2007 kl. 02:05
Fín grein hjá þér, Ingileif. Kv frá eyjum.
Georg Eiður Arnarson, 7.4.2007 kl. 11:15
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.