Hvað er Íslandshreyfingin - lifandi land?

Eftir Snorra Sigurjónsson

Lifandi land er tákn fyrir iðandi mannlíf í lifandi landi þar sem frelsi til athafna fær notið sín.  Í stefnu hreyfingarinnar er sérstök áhersla lögð á jöfnun búsetuskilyrða þar sem sjálfbær nýting lands og sjávar er höfð að leiðarljósi og eignaréttur virtur. Auðlindir geti þó enginn átt.  Þær eru ekki einu sinni þjóðareign, heldur sameiginleg verðmæti sem okkur hefur verið trúað fyrir á meðan við erum hér.  Þetta viðhorf er í góðu samræmi við hugtakið sjálfbæra þróun sem svo margir hafa tamið sér að nota en því miður aðeins í orði en ekki á borði.

Hvað er sjálfbær þróun?

Hugtakið sjálfbær þróun nær yfir það að fullnægja þörfum samtíðar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta sínum þörfum.Sjálfbær þróun byggist á þremur grundvallarþáttum.  Þeir eru náttúruvernd, efnahags- og félagsmál.  Þessa þrjá þætti þarf að styrkja án þess að einhver þeirra vaxi á kostnað hinna.  Ef hlutfallið raskast of mikið mun jafnvægi í þjóðarbúskapnum og í þjóðarsálinni fara úr skorðum.  Hugtakið sjálfbær þróun er viðurkennt, ekki nýtt af nálinni og ekki einu sinni íslenskt.    Hugmyndafræði gömlu flokkanna á Íslandi hefur margt að geyma sem gagnast framtíðarsýn um sjálfbæra þróun.  Íslandshreyfingin mun nýta það besta sem þar er að finna og tengja nýrri hugsun um velferð og frumkvæði fólks til góðra verka.  Hér skal þó undirrstrikað að náttúruvernd verður í fyrirrúmi hjá hinum nýja stjórnmálaflokki.  Sú sérstaka áhersla mun ekki skekkja myndina, heldur rétta hana af.  Gömlu áherslurnar hafa skekkt þá mynd sem flestir vilja sjá.

 

Byggðamál

Ekki hefur farið fram hjá neinum, þrátt fyrir bættan efnahag, að misrétti hefur aukist á Íslandi undanfarið og búseturöskun valdið skaða.  Þessi staða er engin tilviljun.  Umgjörðin er skökk.Við hjá Íslandshreyfingunni höfum síður en svo á móti því að einhverjir efnist, það ætti að koma öllum til góða ef rétt er á haldið.  Það má þó aldrei verða á kostnað náttúrunnar eða búsetuskilyrða.  Við viljum þó ekki ákveða hvar hver á að búa og við hvað hver starfar.  Við treystum fólki til að ákveða slíkt sjálft.Til að ná fram breyttu viðhorfi þarf að bæta ímynd landsbyggðarinnar, leggja áherslu á betri menntun í víðum skilningi, bæta samgöngur og jafna búsetuskilyrði.  Grundvallarskilyrði er að greiðar leiðir verði að byggðakjörnum þar sem nauðsynlega þjónustu er að fá.  Ný hugsun í anda lifandi lands mun breyta ímyndinni, en til þess þarf þjóðin að vinna saman.  Ísland allt er land tækifæranna. 

 

Alþing og lýðræði

Til þess að geta tekið afstöðu til mála þarf upplýsta umræðu í þjóðfélaginu áður en stórar ákvarðanir eru teknar, ekki innantóm slagorð og skítkast.  T.d. hafa íslensk stjórnvöld og alþingsmenn svikist undan í því að upplýsa um kosti og galla einstakra ákvarðana.  Flestir ráðamanna hafa ekki einu sinni fyrir því að skoða þau svæði sem ákveðið er að fórna á altari stóriðjunnar.  Að fara gegn grundvallarreglum lýðræðisins í slíkum málum er mjög alvarlegt og ætti ekki að líðast.Til að endurheimta virðingu Alþings þarf ýmsu að breyta, m.a. annars því að innan flokka geti talist eðlilegt í sumum málum að farið sé á svig við vilja meiri hluta þingflokks.  Að rekast illa í flokki, eða að vera trúr sannnfæringu sinni í einstökum málum er tvennt ólíkt.    Skoðanaskipti ættu aldrei vera þannig að alþingsmenn starfi eins og áhorfendur á fótboltavelli þar sem hver heldur með sínu liði á hverju sem gengur og engin virðing borin fyrir andstæðingunum.  Við hjá Íslandshreyfingunni - lifandi landi viljum ekki hafa Alþing Íslendinga þannig.

 

Vinstri, hægri snú…

Margir kjósendur treysta ekki sínum gamla flokki lengur af ýmsum ástæðum, m.a. í umhverfismálum.  Þarna er tómarúm og þar hefur Íslandshreyfingin ætlað sér stórt hlutverk.  Að bjóða fram til Alþings á öllu landinu er stór ákvörðun.  Sú ákvörðun er til komin af illri nauðsyn.  Hálendið og Ísland allt er í mikilli hættu.  Ánægjulegt er þó að þjóðin er að vakna til umhverfisvitundar og að slík sjónarmið hafa nú fengið rými í öllum flokkum, en það mun ekki duga.  Í Samfylkingunni, Frjálslynda- Framsóknar- og Sjálfstæðisflokknum er ennþá til staðar ótrúlegt fylgi við stóriðjuáform.  Höfum hugfast að “hófleg stóriðja” er ekki til.

 

Betri kostur

Ef þú ert einlægur náttúruverndarsinni en ekki mjög vinstri sinnaður þá er kominn nýr valkostur fyrir þig, valkostur um lifandi land.  Þótt flestir séu farnir að veifa grænum flöggum þá liggur fyrir að enn er veðjað á mengandi stóriðju í skjóli atvinnusköpunar.  Um leið og stóriðja býðst í einhverju byggðarlaginu munu hin fögru áform bresta.  Stóriðjublindan er ekki læknuð.Íslandshreyfingin - lifandi land er flokkur til framtíðar.  Umhverfishraðlestin er komin í gang.  Það er ekki of seint að stökkva upp í með Ómari og Margréti.  Setjum X við I og njótum ferðarinnar.

 

Snorri Sigurjónsson er félagi í Íslandshreyfingunni - lifandi landi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Hjörleifur Guttormsson

Sæll Snorri.

Las pistilinn þinn með athygli. Ég sé að flest af því sem þú víkur að með jákvæðum hætti er á stefnuskrá Vinstri grænna. Sá flokkur hefur nýverið bætt við fyrri stefnumið sín um sjálfbæra samfélagsþróun undir heitinu Græn framtíð. Vænti að þú kynnir þér það rit og hugleiðir hvort þú eigir ekki samleið í þeirri vegferð.

Með bestu kveðjum                       Hjörleifur

Hjörleifur Guttormsson, 13.4.2007 kl. 21:57

2 Smámynd: Baldvin Jónsson

Sæll Hjörleifur. Það er jú alkunna að við í Íslandshreyfingunni eigum mikla samleið með VG þegar kemur að umhverfi og náttúru. Ástæða þess að við kjósum hinsvegar að fara af stað með eigin hreyfingu er að við finnum ekki samnefnara fyrir okkar hugmyndir neins staðar í heild.
Fyrir mitt leyti og margra okkar er VG bara einfaldlega of langt til vinstri fyrir minn smekk. Ég er mikill fylgismaður frjálshyggju og þess að minnka enn frekar ríkisafskipti af rekstri ýmissa stofnana t.d. og þar á ég eugljóslega ekki samleið með t.d. VG.

Ég finn mig heldur ekki hjá hvorki vinstri né hægri hlið Samfylkingarinnar, þó að þar sé líka verulega margt sem mér finnst heillandi. Mér finnst það bara ekki heillandi að geta ekki treyst flokknum til að standa við stefnu sína vegna þess hversu Samfylkingin hefur ítrekað fallið frá sínum skoðunum og sinni stefnu. Finn ekki öryggi eða sameiningu þar fyrir mig.

Af umhverfissjónarmiðum er síðan augljóst hvers vegna ég get ekki litið á aðra flokka sem kost heldur.

Og Ægir, staðan er því miður bara sú að frjálslyndir jafnaðarmenn eru splundraðir fyrir margt löngu síðan. Við erum búnir að vera á hrakhólum stöðugt undanfarin ár, og margir okkar telja sig ekki eiga samleið lengur með Samfylkingunni vegna mikilla vinstri slagsíðu þar á bæ.

Er þá ekki heiðarlegra að fylgja hjartanu og gera sitt besta til að koma sannfæringu sinni á framfæri?

Baldvin Jónsson, 13.4.2007 kl. 22:50

3 Smámynd: Eggert Hjelm Herbertsson

Íslandshreyfingin er bara stofnuð af egói aðila sem þar standa á bakvið. Hefur ekkert að bæta við stjórnmálin á landinu í dag. Verst að Ómar Ragnarsson, sem er goðsögn, skuli taka þátt í svona bulli.

Eggert Hjelm Herbertsson, 14.4.2007 kl. 00:42

4 Smámynd: Jónas Tryggvi Jóhannsson

Já, það hefði verið frábært að sjá Ómar Ragnarsson fara um landið og halda tölu með öllum stjórnmálaflokkum sem vilja mála sig græna. Hann hefði haft gríðaleg áhrif á stefnu flokkana og á almenning sem hlustar á hann og treystir honum -- þangað til hann er kominn með sitt eigin stjórnmálaafl bara til að fiska fylgi frá Sjálfstæðisflokknum. Allt í einu þarf hann að hafa stefnu í öllum málum, og fer að tala um að leyfa undanþágur á veiðar litla báta (sem 50% xD manna eru á móti) .. næst talar Lárus um að ganga í ESB (sem yfir 50% xD manna eru á móti) .. og þá er allt í einu eru þessi 30% af kjósendum Sjálfstæðisflokks sem voru á móti stóriðju og áttu að fara á íslandshreyfingu orðin 30%*50%*50%=7,5% .. og svo takið þið bara fylgi af VG.

.

.

Ég er sammála Hjörleifi; best væri ef þið gætuð dregið framboð ykkar til baka, eða amk að Ómar gerði það. Verst að stolt manna er meira en það, skiljanlega þar sem það er mikil vinna að baki -- sem gerði engum gagn nema þá kannski núverandi ríkistjórn.

Jónas Tryggvi Jóhannsson, 14.4.2007 kl. 03:03

5 Smámynd: Baldvin Jónsson

Sæll vertu Eggert og þakka þér fyrir innlitið.
Vaktir hjá mér forvitni, telurðu þig vera að starfa í stjórnmálum ególaust?

Það er a.m.k. minn skilningur að ég get aldrei nokkurn tíma gert nokkurn skapaðan hlut án þess að egóið sé með í för. Í mínum huga eru það kannski helst fólk eins og Jésús Kristur, Móðir Teresa, Gandhi og mögulega Nelson Mandela, svo einhverjir séu nefndir, sem er möguleiki að hafi unnið gegn egóinu sínu í stanslausri sjálfsfórn til bjargar öðrum.

Að sjálfsögðu er það egóið okkar sem vill breytingar. Að sjálfsögðu er það egóið okkar sem finnst sér misboðið í t.d. jafnaðarmannaflokki þar sem allar áherslur eru orðnar langt til vinstri og forystunni hefur mistekist hrapalega að byggja upp sameiningu.

Egóið hefur oft komið mér í vanda, en það hefur líka oft nýst sem afl til góðs. Þegar breytinga er þörf er það meðvirkni frekar en nokkuð annað að sitja bara hjá og "vona að þetta lagist bara".

Ef að maður vill knýja fram breytingar, hafa áhrif hvort sem er vegna réttlætiskenndar eða löngunar til að koma einhverju áleiðis, þá á maður að sjálfsögðu að gera það. Stíga fram í hugrekki og reyna að hafa áhrif.

Ekki bara sitja þegjandi og vona að maður fái a.m.k. einhverjar sporslur svona til að vera allavega með.

Ég er stoltur af því að fylgja egóinu mínu og ganga í Íslandshreyfinguna. Ég er afar stoltur af því að fylgja fólki sem hefur brennandi hjarta með málstað og er tilbúið að leggja á sig mikið starf til að vinna að honum.

Kjósum með hjartanu!  Kjósum X-Í

Baldvin Jónsson, 14.4.2007 kl. 13:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband