Hvað vill Ómar upp á dekk?

Eftir Snorra Sigurjónsson

Frá því Ómar Ragnarsson hinn ástsæli skemmtikraftur og sjónvarpsmaður „kom út úr skápnum” og ákvað að beina öllum sínum kröftum í þágu íslenskrar náttúru, svo ekki sé nú talað um að skipta sér af þjóðmálum almennt, höfum við orðið vitni að ótrúlegum viðbrögðum gegn þessari ákvörðun hans.

 

Hvað er þessi góði maður að skipta sér af pólitík?  Ómar sem hefur staðið sig svo vel og unnið ómetanlegt starf fyrir þjóðina sem frétta- og þáttagerðarmaður.  Hann sem hefur vakið athygli á svo mörgu sem oft vill gleymast og sýnt okkur myndir af einstæðri náttúru.  Af hverju gat hann bara ekki haldið þessu áfram án þess að „óhreinka” sig í pólitík spyr fólk.  Auðvitað svarar Ómar þessu best sjálfur og hann hefur gert það. Ég var með fordóma um Ómar, að vísu mjög jákvæða, ég sá hann ekki fyrir mér sem stjórnmálamann.

 

Nú hefur þjóðin orðið vitni að því að Ómar er miklu meira en óháður fréttamaður og skemmtikraftur.  Hann er ótrúlega næmur á allt sem skiptir okkur máli.   Sjálfur hef ég verið þess aðnjótandi að kynnst honum í starfi með Íslandshreyfingunni.  Ég er ósvikinn af þeim kynnum og sífellt kemur Ómar mér á óvart með yfirgripsmikilli þekkingu og mannkærleika.  Kynnin staðfesta svo ekki verður um villst að drifkraftur þessa manns og allt hans starf innan hreyfingarinnar er vel ígrundað og byggist á hugsjónum um nauðsyn þess að bjarga Íslandi frá eyðileggingu af mannavöldum og um betra mannlíf í öllum landshlutum. Ef fleiri stjórnmálamenn tileinkuðu sér viðhorf og vinnubrögð Ómars væri pólitíkin vitrænni og skemmtilegri en raun ber vitni.

Stóriðjudraugurinn

Það voru fleiri en Ómar sem gerðu sér grein fyrir því að umhverfismál á Íslandi eru í sjálfheldu, en til að fá þar einhverju breytt yrði að stofna stjórnmálaflokk með þau mál í fyrirrúmi.  Sá flokkur yrði að sækja fylgi sitt inn í raðir þeirra sem kenna sig við miðju og til hægri.  Þessi flokkur er Íslandshreyfingin - lifandi land.

 

Kannanir benda til þess að um 60% þjóðarinnar séu mótfallin mengandi stóriðju með tilheyrandi landspjöllum.  Þrátt fyrir vilja fólks nær þetta viðhorf þó ekki í gegn hjá starfandi stjórnmálaflokkum nema hjá Vinstri grænum. Sá flokkur virðist á húrrandi uppleið, en hugmyndafræði þeirra mun takmarka fylgi þeirra og þeir munu ekki geta kveðið stóriðjudrauginn niður einir á báti.

 

Eins og dæmin sanna er öðrum flokkum á þingi ekki treystandi í þessum málum. Fólk með ýmsar stjórnmálaskoðanir hefur lagt mikið á sig til að koma vitinu fyrir þingmenn og verið óþreytandi að benda á hversu arfavitlaus stóriðjustefnan er, hvort sem litið er til náttúruspjalla eða efnahags- og félagslegra þátta.

 

Að öðrum ólöstuðum kemst þó enginn með tærnar þar sem Ómar hefur hælana í þessari baráttu.  Enginn hefur lagt eins mikið undir og það hefur hann gert á eins óeigingjarnan hátt og hægt er að hugsa sér.   Það virðist hins vegar vera sama hversu góð rökin eru, áfram skal valtað yfir sérfræðiálit og heitar tilfinningar fólks.  Þannig vinnubrögðum verður að breyta á Alþingi og það skal vera hægt.

Ekki eins máls flokkur

Sem stjórnarmaður hjá Íslandshreyfingunni get ég fulllvissað kjósendur um að mikil vinna hefur verið lögð í að skapa raunhæfa stefnu þar sem sérstök áhersla er lögð á frelsi til athafna og að skapa umgjörð fyrir einstök byggðarlög til að þau geti eflst á eigin forsendum.  Við ætlum ekki að ákveða hvar hver skal búa og við hvað hver starfar, en frjór er frjáls maður og við viljum tryggja að fólk geti búið með reisn hvar sem er á landinu. Til þess þarf fólk að geta sótt nauðsynlega þjónustu á auðveldan hátt og þar dugar ekkert minna en stórártak í samgöngumálum. Fjarskiptamálum þarf einnig að koma í viðunandi horf.  Jöfnun búsetuskilyrða er hagur allra.

 

Þá viljum við losa um ýmsa fjötra t.d. opna glugga (gera litla rifu framhjá kvótakerfinu umdeilda) til þess að fólk geti róið til fiskjar án þessa greiða milljónir fyrir fiskveiðiheimildir.  Mörkin þar yrðu smábátar undir 6 tonnum með hámark 2 handfærarúllur.  Sumarveiði á slíkum bátum myndu gjörbreyta bæjarlífi víða um land.  Afli yrði langt innan vikmarka þess sem Hafró gefur sér þegar veiðheimildir kvótaskipa eru ákveðnar og ætti því ekki að hafa áhrif á þær heimildir.  Þá þyrfti einnig að losa um fjötra sem torvelda fólki aðkomu í hefðbundinn búskap.  Æska og elli verða ekki afgangsstærðir hjá okkur.  Við höfum ekki gleymt því hverjir komu þjóðinni yfir erfiðustu hjalla og við vitum hverra er framtíðin.

 

Ómar stendur ekki einn

Til forystu og á framboðslista hjá Íslandshreyfingunni hefur valist einstakur hópur hugsjónafólks sem stendur þétt saman.  Þessi hópur býr yfir víðtækri þekkingu og reynslu á ýmsum sviðum og hefur tekið ábyrga afstöðu í helstu málaflokkum sem skipta þjóðina máli.

 

Endilega, kíkið inn á heimasíðu okkar www.islandshreyfingin.is og kynnið ykkur stefnumál og glæsilega framboðslista.  Svo er bara að kjósa karlinn og hans ágæta fólk, hann á það skilið og það sem meira er um vert,  landið og þjóðin þurfa svo sannarlega á þessum kröftum að halda.

 

Snorri Sigurjónsson skipar 5. sæti á lista Íslandshreyfingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi suður


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 Smámynd: Júlíus Valsson

Það þykir öllum vænt um hann Ómar. En þeir voru fljótir að stela frá ykkur logoinu í henni Ameríkunni (he! he!)

Júlíus Valsson, 6.5.2007 kl. 20:14

2 Smámynd: Adda bloggar

já samála ómar er yndislegur

Adda bloggar, 7.5.2007 kl. 08:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband